Opið bréf til fjölmiðla og lögreglu

Posted on febrúar 7, 2012

2


Í haust kom upp umræða um að vændi væri auglýst í fjölmiðlum fyrir allra augum þrátt fyrir skýr ákvæði laga um að slíkt sé ólöglegt. Í 206. gr, hegningarlaga segir:

„Hver sem í opinberri auglýsingu býður fram, miðlar eða óskar eftir kynmökum við annan mann gegn greiðslu skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.“

Lögreglan er meðvituð um að vændisauglýsingarnar því í DV 28. september 2011 segir: „Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, sagði í dag að enginn vafi væri á því að verið sé að auglýsa vændi í smáauglýsingum sem birst hafa í Fréttablaðinu“. Á sama stað er haft eftir Ólafi Þ. Stephensen ritstjóra Fréttablaðsins að: „… auglýsingadeild blaðsins geti ekki rannsakað allar þær auglýsingar sem birtar séu í blaðinu, en segir að ef upp komi grunur um að auglýsingar séu vændisauglýsingar sé alltaf haft samband við lögregluna.“

Eftir þessa umfjöllun og aðgerðir Stóru systur hurfu nuddauglýsingar, sem birtar höfðu verið undir flokknum Þjónusta í smáauglýsingum, um tíma. Bárust af því fréttir að lögreglan væri í samstarfi við þá sem stórtækastir voru í miðlun vændisauglýsinga um að koma í veg fyrir þær.

Því miður virðist samstarf lögreglunnar og þeirra miðla sem auglýsa vændi ekki hafa borið þann ávöxt sem vonast var eftir því um nokkurt skeið hafa auglýsingarnar verið daglegt brauð í Fréttablaðinu.

Stóra systir hefur því tekið saman leiðbeiningar fyrir þá sem vilja greina og útiloka vændisauglýsingar í sínum miðlum. Ef viðskiptavinur vill auglýsa nudd er yfirleitt hægt að þekkja auglýsingar um ólöglega starfsemi frá auglýsingum um venjulegt (löglegt) nudd með því að skoða eftirfarandi atriði:

a) Nafn fyrirtækis eða rekstraraðila er ekki skrifað undir auglýsinguna

b) Símanúmer sem gefið er upp í auglýsingunni er óskráð farsímanúmer

c) Auglýsingin er á ensku

d) Engin starfsemi nuddstofu er skráð á það heimilisfang sem gefið er upp

e) Ef kona hringir til að panta tíma í nudd er ómögulegt að finna tíma fyrir hana

Er það von Stóru systur að þessar leiðbeiningar muni koma Fréttablaðinu, lögreglunni og fleirum að gagni sem vilja losna við ólöglegar auglýsingar um vændi.

Stóra systir