Stóra systir fær viðurkenningu Stígamóta

Posted on nóvember 25, 2011

0


Stóra systir ásamt öðrum sem fengu viðurkenningu Stígamóta 2011

Í dag veittist stóru systur sá heiður að þiggja viðurkenningu Stígamóta í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn kynferðisofbeldi. Stóra systir þakkar Stígamótum stolt fyrir viðurkenninguna!

Stígamót veittu einnig norsku kvenréttindakonunni Berit Aas, sem hefur verið kölluð ljósmóðir kvennabaráttunnar, Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur, Maríu Lilju Þrastardóttur, Margréti Pétursdóttur og Sóleyju Tómasdóttur viðurkenningar í tilefni dagsins. Stóra systir óskar þeim til hamingju með viðurkenningarnar og er stolt af að tilheyra þessum glæsilega hópi.

Í rökstuðningi Stígmóta segir um Stóru systur:

„Aðgerðir Stóru systur gegn vændisiðnaði á Íslandi eru einhver þau hressilegustu tilþrif sem kvennahreyfingin hefur sýnt lengi! Stóra systir sætti sig ekki við að í landinu sem státar af heimsins bestu lögum gegn klámiðnaði og vændi, sé grasserandi vændismarkaður látinn viðgangast með þegjandi samþykki allra þeirra sem ættu að grípa inn.
Stóra systir blés á kvenlegar dyggðir og rannsakaði þann neðanjarðarheim sem býður upp á kaup og sölu á konum. Hún afhenti lögreglu nöfn, síma og netföng fjölda vændiskaupenda og sýndi þannig framá hversu auðvelt það er að bregðast við ef viljinn er fyrir hendi. Með því að birta hvorki eigin nöfn né kaupenda, er ljóst að stóra systir getur verið hvaða kona sem er og allir karlar sem reynt hafa að kaupa vændi geta átt von á að nafn þeirra sé í höndum lögreglu. Stígamót skora á Stóru systur að halda vöku sinni og með áframhaldandi aðgerðum, skapa raunverulega jafnréttisparadís á Íslandi.“

Stóra systir hélt eftirfarandi þakkarerindi við athöfnina í Norræna húsinu sem haldin var kl. 11 í morgun, föstudaginn 25. nóvember:

„Stóra systir vill þakka Stígamótum fyrir þann kjark að veita henni verðlaun fyrir aðgerðir sínar. Aðgerðir sem margir hafa fordæmt á þeim forsendum að hún hefði hvatt til glæps eða komið fram undir nafnleynd.

Aðgerðir Stóru systur hafa vakið gríðarleg viðbrögð og Stóra systir vildi vekja viðbrögð. Tilgangur Stóru systur var að fá þjóðfélagið til að líta í eigin barm, mynda sér skoðanir á vændiskaupum og hafa álit.

Tvískinnungurinn í umræðunni hefur verið í takti við veruleikann. Íslenska þjóðin hefur komið sér saman um lög sem banna kaup á vændi en þau virðast ekki ná til samfélagsins. Vændiskaupendur eru varðir með nafnleynd og það þykir ekkert tiltökumál, en þegar hópur kvenna sem berst gegn vændi kemur fram undir nafnleynd, tekur hávær hópur við sér sem aldrei fyrr. 

Verðlaun Stígamóta eru veitt undir yfirskriftinni: Konur sem ögra. Stóra systir hefur vissulega ögrað. Allar konur sem ögra eru yfirleitt kallaðar öfgafullar, vegna þess að þær hrista upp í viðteknum hugmyndum samfélagsins sem ríkjandi öfl vilja standa vörð um. Öfgarnar hjá Stóru systur felast í því að ætlast til þess að fólk fylgi þeim lögum sem samfélagið hefur sett og samþykkt af kjörnum fulltrúum á Alþingi.

Stóra systir á sér draum

  • Að búa í samfélagi þar sem enginn kaupir líkama og neyð manneskju
  • Að búa í samfélagi þar sem gagnkvæm virðing, jafnrétti og mannréttindi eru höfð að leiðarljósi
  • Að búa í samfélagi þar sem meðferð kynbundinna glæpa hjá lögreglu er í höndum sérfræðinga með víðtæka þekkingu á kynjakerfinu
  • Að búa í samfélagi þar sem brot á lögum um vændi eru tekin jafn alvarlega og önnur brot og sinnt í samræmi við það
  • Að búa í samfélagi sem markvisst vinnur að því að upplýsa kaupendur kláms og vændis um afleiðingar þess

Stóra systir telur íslenskt samfélag vera það burðugt að draumar hennar um sjálfsögð mannréttindi geti orðið að veruleika. Þangað til þarf samfélagið á Stóru systur að halda.“

Posted in: Uncategorized