Vændi – Enn ein birtingarmynd kynferðisofbeldis?

Posted on október 24, 2011

0


Lítið er vitað um stöðu vændismála á Íslandi en sá raunveruleiki sem blasir við okkur hjá Stígamótum sýnir að það er stórt vandamál sem nauðsynlegt er að horfast í augu við. Þörf er á viðhorfsbreytingu og aukinni umræðu um afleiðingar af vændi. Nauðsynlegt er að upplýsa bæði fagfólk og almenning um þann skaða sem fólk verður fyrir í vændi. Bæði karlar og konur hafa leitað til Stígamóta í gegnum tíðina vegna vændis. Það sem er sameiginlegt með konum og körlum sem eru í vændi eru afleiðingarnar. En fyrst og fremst er þó um konur að ræða.

Margar ólíkar ástæður geta legið á bak við þá ákvörðun að manneskja fer út í vændi og mikilvægt er að sýna þeim ástæðum nærgætni og skilning. Margar af þeim konum sem eru í vændi eiga þann bakgrunn úr æsku að það er búið að brjóta á þeirra persónulegu mörkum með t.d. kynferðisofbeldi eða vanrækslu. Það á þó ekki alltaf við. Goðsögnin um hamingjusömu vændiskonuna lifir góðu lífi en raunveruleikinn er allt annar en goðsögnin. Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir fólk í vændi í Kaupmannahöfn gaf út bók sem meðal annars fjallar um afleiðingar af vændi. Þá bók er verið að þýða á Stígamótum. Þar eru afleiðingar af vændi flokkaðar í þrenns konar skaða; félagslegan, sálrænan og líkamlegan. Þar er talað um reynslu danskra kvenna í vændi og afleiðingarnar og tala ég því um reynsluheim kvenna í vændi.

Félagslegar afleiðingar vændis

Fordómar samfélagsins gagnvart vændiskonum eru alvarlegt vandamál og stór hindrun fyrir því að konur leiti sér hjálpar. Umhverfið fordæmir þær, sem leiðir til þess að þær fara að fordæma sjálfar sig og fordómarnir leiða til þöggunar um vændið og þær fara að lifa tvöföldu lífi. Það fylgir því mikið álag að lifa tvöföldu lífi og það getur leitt til félagslegrar einangrunar og konan getur fundið fyrir miklum einmanaleika. Óttinn og skömmin við að verða afhjúpuð, að upp komist um vændið er óneitanlegur fylgifiskur og getur fylgt konunni lengi eftir að hún hefur hætt í vændi. Margar konur segja frá því að þær lifi í stöðugum ótta við að lenda á ógnandi eða ofbeldisfullum kaupendum en fordómarnir leiða til þess að konur leita sér síður aðstoðar ef þær verða fyrir ofbeldi. Óttinn við afhjúpunina og að þær verði ekki teknar alvarlega vegna vændisins, heldur þeim föngnum í einangrun sem gerir það að verkum að konan verður oftar en ekki útsettari fyrir niðurlægingu og ofbeldi. Margar konur lýsa því að kaupendurnir hafi farið yfir mörkin þeirra, ógnað þeim og þvingað þær til að framkvæma eitthvað sem ekki var fyrirfram ákveðið.
Konunni getur einnig fundist erfitt að setja mörk vegna þess að hugsun hennar er sú að það sé hlutverk hennar að þóknast kúnnanum gegn greiðslunni og framkvæma það sem óskað er eftir.

 Sálrænu afleiðingarnar af vændi

Konur sem eru í vændi segja að til þess að halda tilfinningalegri fjarlægð frá kaupandanum og því sem gerist í vændinu þurfi þær að aftengja sig og fara í hlutverk. Þessi aftenging yfirfærist oftar en ekki á einkalíf þeirra. Margar konur segja að fljótlega eftir að þær byrjuðu í vændi hafi þær farið að upplifa erfiðleika við að mynda tilfinningalegt og líkamlegt samband við þá einstaklinga sem þær eru nánar, bæði fullorðna og börn. Þunglyndi og kulnun kemur einnig fljótt fram hjá þeim. Margar konur upplifa sálræn óþægindi sem geta birst í áráttuhegðun í þeirra daglegu lífi, eins og áráttukenndum líkamsþvotti af því að þeim finnst þær vera skítugar, eða að þær finna fyrir ógleði og svima í tengslum við líkamslykt. Ekki er óalgengt að konur í vændi finni fyrir miklum doða gagnvart umhverfinu. Þegar þær eru komnar á þennan stað finna sumar fyrir aukinni þörf fyrir að deyfa sársaukann og óþægindin sem fylgja vændinu og byrja að misnota áfengi, lyf eða vímuefni. Stundum kemur það fyrir að konur horfi á sjálfsmorð sem einu leiðina út úr erfiðum aðstæðum.

Líkamlegar afleiðingar

Konur í vændi geta fundið fyrir verkjum í grindarholi, ertingu í leggöngum og sársauka í mjöðmum og baki. Einnig er aukin áhætta á kynsjúkdómasmiti og HIV.

Kaupendur vændis

Fyrir kaupendur vændis er umhugsunarvert að skoða hvaða vald er verið að kaupa sér yfir annarri manneskju með því að kaupa vændi. Valdastaðan á milli kaupanda og seljanda er gríðarlegur. Sumir líta svo á að  vændi sé borguð nauðgun, vegna þess að kona sem er búin að selja aðgang að líkama sínum upplifir oftar en ekki að hún geti ekki sett kaupandanum mörk. Það sem er gert við líkama hennar sé hluti af kaupsamningi og ef kaupandinn krefst einhvers sem er óþægilegt þá verði hún að sætta sig við það. Þannig getur átt sér stað flókið samspil í tengslunum á milli konunnar og kaupandans sem getur snúist upp í að konan upplifi ofbeldi af hendi kaupandans. Jafnvel stundum án þess að kaupandinn geri sér grein fyrir því hvað sé að gerast. Sumar konur tala um að þær séu með góða kaupendur sem komi fram við þær af virðingu og að þær geti notið þess að fá athygli frá þeim, en það dugi þó ekki til að vega upp á móti þeim neikvæðu upplifunum sem fylgja vændinu. Aðrar konur í vændi reyna í hinu daglega lífi að lifa með ótta sínum og reyna eftir fremsta megni að tryggja sig gegn ofbeldi eða hótunum um slíkt.

 Að veita konum í vændi aðstoð

Konur í vændi segja ekki endilega frá öllum þeim erfiðleikum sem geta fylgt því að vera í vændi eða því neikvæða sem gerst hefur í lífi þeirra eða því sem átt hefur þátt í því að þær hafa leiðst út í vændi. Þess vegna er mikilvægt að fagfólk, sem vinnur með konum sem eru í vændi, sé meðvitað um afleiðingarnar. Að mati starfsfólks í fræðslu- og upplýsingasetrinu í Kaupamannahöfn er mikilvægt að fagfólk sem kemur að þessum málaflokki byrji fyrst og fremst á því að skoða sín eigin viðhorf gagnvart vændi. Algengt er að fólk hafi gildis- og tilfinningahlaðnar hugmyndir um vændi og sem fagaðili er mikilvægt að hafa skilning á þeirri djúpu skömm sem kona í vændi ber í brjósti sér. Almennt er talað um að þær konur sem eru í vændi séu félagslega útskúfaðar en þær segja sjálfar að skömmin sé mikil hindrun fyrir því að þær leiti sér hjálpar.

Fólk sem hefur leitað til Stígamóta vegna vændis hefur kennt okkur á síðustu tveimur áratugum að vændi er ekkert annað en enn ein birtingarmynd kynferðisofbeldis. Það er fagnaðrefni að sá skilningur skuli nú endurspeglast í íslenskum lögum. Í Stígamótum er nú rekin sjálfshjálparhópur fyrir konur sem vilja vinna úr afleiðingum vændis og einnig undirbúa Stígamót nú stofnun athvarfs fyrir konur á leið úr vændi og mansali.

 Björg G. Gísladóttir ráðgjafi hjá Stígamótum

Ofangreind grein byggist á fyrirlestri Bjargar G. Gísladóttur og Önnu Þóru Kristinsdóttur (ráðgjafar hjá Stígamótum) um afleiðingar vændis. Fyrirlesturinn byggðist á bókinni: Servicestyrelsen, Kompetencecenter prostitution. (2009). Aspekter ved prostitution-Faglige  redskaber til sagsbehandlere og andre fagpersoner. Odense: Höfundur. Bókin er nú í Þýðingu hjá Stígamótum. Nánari upplýsingar má finna hjá Stígamótum.

Stóra systir birtir greinina með góðfúslegu leyfi Bjargar. Greinin birtist á Smugan.is 6. júní 2011.

Posted in: Greinar