Máttleysi stjórnvalda

Posted on október 24, 2011

0


Ríksstjórnin lofaði árið 2009 að „Vinna gegn eftirspurn á vændis- og klámmarkaði með því að auka eftirlit með vændisstarfsemi og koma lögum yfir þá sem stuðla að, skipuleggja eða hafa ábata af henni.“
Þrátt fyrir að í langan tíma hafi mátt sjá daglegar vændisauglýsingar í stærsta dagblaði landsins, hefur ekkert verið aðhafst fyrr en loks nú og þá tímabundið. Teikn eru á lofti um að mögulega sé um skipulagða glæpastarfsemi að ræða og jafnvel mansal. Konurnar eru erlendar, í leyninúmerum og stoppa á landinu í stuttan tíma. Slíkar aðstæður ættu að gefa lögreglu skýra heimild til að nota forvirkar rannsóknaraðferðir.
Rannsókn vændismála hefur verið í höndum kynferðisbrotadeildar lögreglunnar sem hefur þó ærin verkefni fyrir. Það er deginum ljósara að öll þau mál sem þurfa að keppa um tíma lögreglunnar við nauðganir og kynferðisbrotamál gegn börnum, hljóta sjálfkrafa að verða að afgangsmálum sem ekki verður sinnt. Aðeins einu sinni hafa fallið dómar í vændiskaupamálum.
Þrátt fyrir aðdáun umheimsins á skeleggri framgöngu íslenskra stjórnvalda gegn klámbúllum á Íslandi eru a.m.k. tvær starfandi ennþá. Í boði er hið stórvinsæla einkaspjall, eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Það felst í því mikið vald að ákveða hvernig kröftum lögreglu er varið. Stóru systur finnst vera kominn tími til að taka til hendinni!

Þessi texti var lesinn á blaðamannafundi Stóru systur í Iðnó 18. október 2011.

Posted in: Uncategorized